Umsögn RSG vegna Atvinnustefnu: Skapandi greinar eru burðarás í atvinnustefnu Íslands

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) hefur skilað inn umsögn vegna áforma um atvinnustefnu Íslands til ársins 2035. RSG fangar því að stjórnvöld séu að hefja markvissa stefnumótun á þessu sviði en leggur ríka áhersla á að skapandi greinar verði viðurkenndar sem skilgreindur og mikilvægur atvinnuvegur.  

Í drögunum að atvinnustefnunni er lögð áhersla á að ný atvinnustefna verði tíu ára vaxtaráætlun með sérstakri áherslu á greinar sem hafa mikla vaxtarmöguleika. Að mati RSG hafa skapandi greinar þá burði og því hvetjum við til þess þær verði skilgreindar sem áherslusvið í stefnunni. Skapandi greinar eru ekki einungis vaxandi útflutningsgrein heldur einnig lykilþáttur í nýsköpun, samfélagslegri velferð og alþjóðlegri ímynd Íslands. Þá auka þær verðmæti annarra íslenskra vara og þjónustu. Með því að tryggja að verðmæti og störf skapist hér á landi, geti skapandi greinar orðið burðarás í fjölbreyttu og sjálfbæru útflutningskerfi Íslands til framtíðar. 

Mikilvægi rannsókna og betri mælikvarða 

RSG gagnrýnir að í drögunum sé aðeins talað um hugverkaiðnað en ekki skapandi greinar. Í umsögninni er bent á að samkvæmt hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, eru skapandi greinar skilgreindar sem atvinnugrein sem byggir á hugverkum eins og tónlist, ritlist, kvikmyndum, hönnun og tölvuleikjum. Þá er einnig bent á að hefðbundnir mælikvarðar ná misvel utan um þessar greinar, sem oft dreifast milli flokka í opinberum tölum. Rannsóknasetrið hvetur stjórnvöld til að efla grunnrannsóknir og þróa sértækar aðferðir við gagnaöflun og greiningu til að fá skýrari mynd af umfangi og áhrifum skapandi greina. 

Áhersla á sjálfbærni, útflutning og menntun 

Í umsögninni eru sett fram markmið fyrir atvinnustefnuna: 

  • Rannsóknir: Styrkja grunnrannsóknir um atvinnulífið til að fá raunverulega mynd af umfangi og áhrifum einstakra greina. 

  • Vöxtur og sjálfbærni: Að atvinnulífið vaxi í samræmi við loftslagsmarkmið. 

  • Vinnumarkaður: Að atvinnustefna taki mið af breyttu atvinnumynstri þar sem sjálfstætt starfandi og einstaklingar  í blandaðri starfsemi, eru sífellt stærri hluti vinnumarkaðarins. 

  • Alþjóðleg samkeppnishæfni: Styðja við útflutning á hugverkum, menningu og skapandi vörum og þjónustu. 

Þess má geta að auk Rannsóknarseturs skapandi greina sendu Rithöfundasamband Íslands, Sviðslistamiðstöð Íslands, Félagi íslenskra listamanna í sviðslistum og kvikmyndum, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Tónlistamiðstöðin inn umsögn vegna áforma ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um nýja atvinnustefnu.

Next
Next

Norræn ráðstefna um menningarstefnu 2025