
Verkefni í vinnslu
Samfélagsleg áhrif menningar og skapandi greina
Unnið er að undirbúningi að rannsókn sem snýr að mælikvörðum á samfélagslegum áhrifum menningar og skapandi greina. Að verkefninu koma Þorbjörg Dapne Hall, prófessor við Listaháskóla Íslands, Lara Hoffmann, nýdoktor við Háskóla Íslands, Vífill Karlsson, prófessor og forstöðumaður Rannsóknaseturs í byggða- og sveitarstjórnarmálum, og Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG. Í sumar mun Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir, nemi í klassískum söng (BMus) frá LHÍ, vinna eigindlega rannsókn um samfélagsleg áhrif lista undir leiðsögn Þorbjargar, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Í haust er svo áætlað að setja í loftið spurningakönnun sem byggir að hluta á gagnaöflun Hrafnhildar.
Evrópskt rannsóknarverkefni sem eflir miðlun handverksþekkingar
Tracks4Crafts er evrópskt rannsóknarverkefni sem miðar að því að standa vörð um og styrkja miðlun á handverksþekkingu til þess að auka efnahagslegt og samfélagslegt gildi hennar innan Evrópu og efla hlutverk handverks í samhengi menningararfleifðar. Háskólinn í Antwerpen í Belgíu leiðir verkefnið, sem styrkt er af Horizon Europe til fjögurra ára, 2023-2027.
Í heild koma að verkefninu 16 stofnanir en afurð verkefnisins byggir á átta tilraunastofum í sjö Evrópulöndum þar sem þróuð eru verkfæri og aðferðir til kennslu og miðlunar á handverksþekkingu. Jafnframt er lögð áhersla á að tengja saman menningararfinn og stafræna tækni. Tilraunastofan hér á landi er Textílmiðstöð Íslands.
Rannsóknasetur skapandi greina var fengið til þátttöku í verkefninu, og svaraði spurningalistum um lagaumhverfi og stefnumál handverks á Íslandi en skýrsla þess efnis er væntanleg. Þeir þættir sem teknir eru fyrir snúa að skilgreiningum, menningararfi, menntun, tölfræði og hugverkarétti.
Þarfagreining á sviði handverks á Íslandi
Rannsóknasetur skapandi greina hefur umsjón með framkvæmd könnunar um stöðu handverksfólks á Íslandi, fyrir hönd sjálfseignarstofnunarinnar Handverks og hönnunar. Markmiðið með könnuninni er að öðlast dýpri skilning á umhverfi handverksfólks á Íslandi í víðu samhengi og bera kennsl á þá þætti sem þarfnast umbóta með þarfir iðkenda í huga. Tilgangurinn er að efla íslenskt handverk sem atvinnugrein, stuðla að tryggri framtíð þess fyrir ókomnar kynslóðir og auka skilning á handverki sem menningarverðmæti í samtímanum.
Þeir þættir sem teknir eru fyrir snúa að skilgreiningum og sjálfsmynd, menningararfi, starfsumhverfi, hugverki, söluumhverfi, stuðningi stjórnvalda, Handverk og hönnun, og loks bakgrunni þátttakenda.