Norræn ráðstefna um menningarstefnu 2025 

Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG), sótti í vikunni 12. Norrænu ráðstefnuna um menningarstefnu (Nordic Conference on Cultural Policy Research, NCCPR) sem haldin var við OsloMet í Noregi dagana 25.–27. ágúst. Ráðstefnan, sem fer fram annað hvert ár, er helsti vettvangur fræðilegra umræðna um menningarstefnu á Norðurlöndum. Yfirskriftin í ár var “Technological change and the discourse of crisis: Putting cultural policies to work”

Yfirskrift ráðstefnunnar er í samræmi við aukna krísuumræðu sökum breytinga á neyslumynstri á sviði menningar sem og fjölmiðla. Áhyggjur af upplýsingakrísu knúin áfram af gervigreind, upplýsingaóreyðu og falsfréttum. Þá eru auknar áhyggjur af friðhelgi einkalífsins og af minnkandi lesskilning allt frá grunnskólaaldri til fullorðinsára. Norræna ráðstefnan um menningarstefnu vill með yfirskriftinni vinna að auknum skilningi og getu til að tækla þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. 

Það er ljóst að mikið er að gerast í rannsóknum á sviði menningarstefnu og skapandi greina á Norðurlöndum og víðar. Meðal þess sem er rannsakað er hvernig stafræn þróun er að breyta menningarneyslu, hvernig fjármögnun og samstarf mótar vinnuumhverfi listafólks og hvernig tryggja má jafnræði og aðgengi í menningarlífi. Þessar rannsóknir varpa ljósi á áskoranir samtímans og opna jafnframt möguleika til nýrrar stefnumótunar. 

 

Lykilfyrirlestrar 

Þrír lykilfyrirlesarar fluttu afar athyglisverð erindi: 

  • Trine Syvertsen, prófessor við Háskólann í Osló, fjallaði um menningar- og miðlastefnu í ljósi fjölþættra áskorana og spurði meðal annars hvort menningin sé í raun „græn og hrein“ (e. green and clean). Hún benti í því samhengi á umhverfisáhrif menningarneyslu og stafrænnar framleiðslu, svo sem orkufreka gagnaversstarfsemi. 

  • Ole Marius Hylland, rannsóknaprófessor við Telemarksforsking, lýsti „hlaupabretta-áhrifum“ í menningarstefnu þar sem stjórnvöld hreyfast (mis)hratt í orðræðu en ná ekki að fylgja eftir tæknibreytingum í framkvæmd. Hann lagði áherslu á nauðsyn endursamstillingar (e. resynchronization) milli stefnumótunar og tækniþróunar en viðurkenndi að það gæti reynst erfitt í raun. 

  • Bjarki Valtýsson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, kynnti rannsókn á samfélagsmiðlavæðingu safna fyrir væntanlega bók. Í rannsókninni hefur Bjarki skoðað áhrif samfélagsmiðla á samskipti safna við almenning og jafnvægi valds milli miðlunarstofnana og stafrænnar vettvangsmenningar. 

 

Málstofur og pallborð 

Íslenska sendinefndin á NCCPR. Á myndinni eru frá vinstri: Theodóra Listalín Þrastardóttir, sérfræðingur Hagstofunnar í menningartölfræði; Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG og Njörður Sigurjónsson, prófessor við Háskólan á Bifröst.

Á ráðstefnunni fóru einnig fram fjölmargar málstofur og pallborðsumræður sem endurspegla fjölbreyttar áherslur og áskoranir samtímans. Þar má nefna: stafrænar umbreytingar og áhrif þeirra á menningarneyslu; fjármögnun, samstarf og áhrif þessa á vinnuumhverfi listafólks; jafnrétti, aðgengismál og sjálfbærni í menningarstarfi; áskoranir menningarstefnu og menningarstofnana á óstöðugum tímum skautunar og menningarstríða; og um fortíð og framtíð norrænnar menningarstefnu. 

Mikilvægi fyrir íslenskt samhengi 

Ráðstefnan undirstrikaði mikilvægi þess að þróa rannsóknir, stefnumótun og faglegt starf á sviði menningarstefnu í takt við ört breytilegt samfélag. Hún undirstrikaði einnig mikilvægi þess að stefnumótun byggi á rannsóknum og þekkingarmiðlun frá fræðasamfélaginu. Fyrir Ísland er þátttaka í slíkum vettvangi lykilatriði – bæði til að miðla af eigin reynslu og til að læra af norrænum samstarfsaðilum. 

 

Previous
Previous

Umsögn RSG vegna Atvinnustefnu: Skapandi greinar eru burðarás í atvinnustefnu Íslands

Next
Next

Samtöl um skapandi greinar hefjast að nýju!