Þriðja úthlutun úr meistaranemasjóði RSG

Í byrjun september ákvað stjórn RSG að veita þremur nemendum styrki úr meistaranemasjóði setursins. Þetta er í þriðja skipti sem úthlutað er úr sjóðnum en að þessu sinni voru veittir þrír styrkir. Styrkhafar stunda öll nám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Úthlutun fer fram 2. október, í upphafi viðburðarins Samtal um listræna stjórnun.

Birna Klara Björnsdóttir hlaut styrk fyrir verkefnið Er sviðið mitt? Upplifun sjálfstætt starfandi tónlistarfólks á aðgengi sínu til tónleikahalds í Hörpu. Markmið verkefnisins er að greina upplifun sjálfstætt starfandi tónlistarfólks af því að halda tónleika og koma fram í Hörpu, skoða hvort og/eða hvernig ákveðnir tónlistarhópar njóti meiri eða minni stuðnings og sýnileika, greina og skilja fjárhagslegar og kerfisbundnar hindranir sem kunna að takmarka eða hamla aðgengi, og að lokum bera þessar upplifanir saman við opinberar menningarstefnur og yfirlýst markmið Hörpu. Tilgangurinn er að skoða hvort Harpa, sem hús í almannaeigu, standi undir yfirlýstum markmiðum sínum um faglegan metnað og fjölbreytileika, þar sem tónlistarlífið endurspeglar breidd íslenskrar tónlistar.

Jón Haukur Unnarsson hlaut styrk fyrir verkefnið Hvernig geta sjálfstæðar skipulagsheildir dafnað innan vistkerfis menningar og skapandi greina á Íslandi? Markmið verkefnisins er að skerpa sýn á stöðu einstakra sjálfstæðra og sjálfsprottinna skipulagsheilda innan menningargeirans á Íslandi. Þannig er rannsókninni ætlað að varpa ljósi á starfsumhverfi ólíkra einstaklinga innan sjálfstæða menningargeirans, þar sem sjálfstæði merkir að skipulagsheildirnar sem viðmælendur koma að eru reknar af einstaklingum en ekki af hinu opinbera, auk þess að vera ekki hagnaðarmiðaðar heldur eru helstu markmið þeirra að efla nærumhverfið og miðla menningarstarfi og -arfi líkt og algengt er innan sjálfstæðra menningarfyrirtækja almennt.

Rakel Mjöll Leifsdóttir hlaut styrk fyrir verkefnið Innleiðing hvatamódels í menningarstefnu: Hvatar, sjálfstæði og stefnumótun. Verkefnið snýr að möguleikum þess að innleiða skattalega hvata og aðra þætti úr hvatamódeli í íslenska menningarstefnu, með það að markmiði að styrkja fjármögnun og sjálfbærni skapandi greina án þess að grafa undan fjölbreytileika og sjálfstæði listageirans. Í rannsókninni verður horft til alþjóðlegra dæma, m.a. frá Bretlandi og Suður-Kóreu, og lögð áhersla á hvernig nýjar nálganir í menningarstefnu geta aukið samstarf við einkageirann, eflt atvinnulíf og skapað grundvöll fyrir nýsköpun og sjálfbærni í menningartengdri starfsemi á Íslandi.

Við óskum styrkþegum innilega til hamingju!

Lesa má um meistaranemasjóðinn HÉR.

Next
Next

Samtal um listræna stjórnun 2. október