Skráning á samtal
Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) í samstarfi við CCP býður í samtal um skapandi greinar fimmtudaginn 2. október klukkan 8:30-10:00 í húsakynnum CCP Í Grósku, 3. hæð, að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Listræn stjórnun og fundarstjóri er Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG. Erindum verður streymt.
Í þessu samtali fræðumst við um hvað listræn stjórnun felur í sér og heyrum frá þremur reynslumiklum stjórnendum sem hafa leitt listviðburði og skapandi samstarf á fjölbreyttum vettvangi. Við fáum innsýn í hvernig listræn stjórnun mótar menningarlandslagið með ólíkum hætti og hvetjum áhugasama um listir, menningu og stjórnun til að taka þátt í lifandi umræðu um þetta síbreytilega og skapandi starfssvið.
Lára Sóley Jóhannsdóttir tók við stöðu listræns stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík í nóvember 2024. Hún er fædd árið 1982 á Húsavík og hóf starfsferil sinn á Akureyri eftir að hafa lokið BMus gráðu frá Royal Welsh College of Music and Drama árið 2006. Hún var sjálfstætt starfandi í tónlist, stýrði ýmsum tónleikaröðum og hátíðum og fékkst við kennslu. Árið 2015 var hún bæjarlistamaður Akureyrar og gegndi stöðu konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá 2015 til 2018. Hún var verkefnastjóri í Menningarhúsinu Hofi frá 2010 til 2014 og var starfandi framkvæmdastjóri um tíma. Lára lauk meistaragráðu í listastjórnun frá Royal Welsh College árið 2019. Sama ár var hún ráðin framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands og sinnti því starfi þar til að hún hóf störf hjá Listahátíð.
Pétur Ármannsson er framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi Reykjavík Dance Festival, einnar helstu samtímadanshátíðar í Evrópu. Hann hefur tekið virkan þátt í stjórn og mótun menningarstefnu á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, meðal annars innan Sviðslistaráðs og í fjölbreyttum samstarfsnetum. Sem leikstjóri, sviðslistamaður og kennari býr hann yfir áratugareynslu af skapandi starfsemi og þróun verkefna þar sem listræn sýn, fagleg stjórnun og starfshættir byggðir á inngildingu og sjálfbærni fara saman.
Guja Sandholt býr í Reykjavík og Amsterdam og starfar sem klassísk söngkona og listrænn stjórnandi Óperudaga. Á undanförnum árum hefur hún komið víða fram í Hollandi, Íslandi og víðar. Sumarið 2019 stóð hún fyrir íslenskum frumflutningi á víkingaóperunni King Harald's Saga eftir Judith Weir og var í kjölfarið tilnefnd sem Söngkona ársins í sígildum flokki á Íslensku tónlistarverðlaununum. Á undanförnum árum hefur Guja fengist við fjölbreytt verkefni með áherslu á tónlist, samfélagið, samstarf og sýnileika klassískrar sönglistar. Hún stofnaði Óperudaga í samtali við Kópavogsbæ árið 2016 en hátíðin hefur verið dýrmætt tækifæri til að kanna nýjar söngslóðir á Íslandi og um leið mynda þéttan kjarna af fólki með svipaðar ástríður og markmið. Hátíðin var valin Tónlistarhátíð ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2019.
--
Í kjölfar erinda lýkur streyminu og opnað verður fyrir umræður meðal fundargesta.
Samtal um skapandi greinar er röð óformlegra funda sem RSG stendur að í samvinnu við CCP. Með fundaröðinni vill RSG skapa samræðuvettvang áhugafólks um skapandi greinar með því að tengja saman hagaðila í einkageiranum, akademíunni og frá stofnunum og stjórnsýslunni og efla þannig umræðuna um menningu og skapandi greinar.
Vinsamlegast skráið mætingu (á staðinn) hér að neðan. Athugið að sætaframboð er takmarkað.
Skráningu lýkur kl. 14 miðvikudaginn 1. október.
CCP býður fundargestum upp á kaffi og léttan morgunverð.