Erla Rún í stýrihópi Kulturanalys Norden

Erla Rún á fyrsta málþingi RSG í mars 2024. Ljósmyndari: James Einar Becker.

Forstöðukona RSG, Erla Rún Guðmundsdóttir, hefur verið skipuð sem fulltrúi Íslands í stýrihóp Kulturanalys Norden 2025-2027. Menningar-, háskóla- og nýsköpunarráðherra tilnefnir fulltrúa í hópinn og hefur Erla Rún setið í honum síðan 2021, fyrst sem starfsmaður Hagstofu Íslands og síðar fyrir hönd RSG. 

“Norrænt samstarf er gríðarlega mikilvægt í þessum málaflokki, eins og flestum, og seta í stýrihópnum gefur mér og rannsóknasetrinu dýrmætt tækifæri til að hafa áhrif, fylgjast með starfi Kulturanalys Norden og systurstofnana á Norðurlöndunum og kynnast norrænum kollegum,” segir Erla Rún. 

Kulturanalys Norden er norræn þekkingarmiðstöð um menningarstefnu sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og hefur verið rekin af sænsku stofnuninni Myndigheten för Kulturanalys síðan 2016. Miðstöðin vinnur að þremur meginstoðum í starfsemi sinni: að samhæfa norræna menningartölfræði, að rannsaka og greina menningarpólitík, stefnumótun og áskoranir, og miðla þekkingu og rannsóknum á þessu sviði.

Stýrihópurinn hefur það hlutverk að tryggja að starfsemi Kulturanalys Norden sé vel tengd þörfum og þróun í hverju landi, að niðurstöður séu hagnýtanlegar fyrir stefnumótendur, og að miðstöðin haldi áfram að vera leiðandi fyrir samanburðarhæfa greiningu menningarstefnu á Norðurlöndunum. Hópurinn fundar reglulega yfir skipunartímabilið en hann skipa fulltrúar Norðurlandanna, þ.e. Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, auka Færeyja, Grænlands og Álandseyja.

Previous
Previous

Samtal um rekstrarumhverfi tónlistar miðvikudaginn 5. nóvember

Next
Next

Þriðja úthlutun úr meistaranemasjóði RSG