Lifa ekki af listinni en vinna fullt starf
Emilia Telese á Samtali um gagnrýni í september 2025
SÍM (Samband íslenskra myndlistarmanna) birti fyrr í mánuðinum skýrslu um lífviðurværi myndlistarmanna. Skýrslan var unnin fyrir hönd SÍM af Emiliu Telese, listamanni, fræðimanni og rannsakanda sem starfar á Íslandi, Ítalíu og Bretlandi. Hún er unnin í framaldi af fyrri könnunum SÍM frá 2020 og því er um að ræða langtímarannsókn sem tekur yfir fimm ára tímabil.
Þátttakendur könnunarinnar voru allir aðilar að SÍM og þar með fagmenntaðir myndlistarmenn. Niðurstöðurnar draga upp skýra mynd af efnahagslegri óvissu, miklu vinnuálagi og kerfisbundnum hindrunum fyrir sjálfbærni. Listamenn verja vinnustundum sem samsvara fullu starfi í listköpun sína, en samt er hlutfall tekna þeirra sem byggir á listsköpun minna en 25% heildartekna. Margir þeirra treysta á kennslu eða önnur störf til að tryggja framfærslu sína.
Í skýrslunni eru eftirfarandi meginniðurstöður teknar saman:
Á meðan 75% starfandi myndlistarmanna á Íslandi eyða frá 30 til yfir 50 klukkustundum á viku í listsköpun og tengda umsýslu, nema tekjur þeirra frá myndlist einungis 20% til 25% af framfærsluþörf þeirra.
Þegar listamenn SÍM voru spurðir um hvað væri árangursríkast til að tryggja stöðu þeirra sögðu flestir að útfærsla á borgaralaunum sem tryggðu lágmarkstekjur myndi nýtast best. Þetta hafði meira vægi í niðurstöðum en styrkir eða skattaívilnanir.
Söfn og gallerí eru ennþá mikilvægur vettvangur fyrir sýningar, en listamannarekin sýningarrými og aðrir sýningar möguleikar eru sérstaklega mikilvægir fyrir listamenn af erlendum uppruna.
Aukinn fjárhagslegur stuðningur og niðurgreidd vinnustofurými myndi, að mati listamanna, hafa bein áhrif á aukna framleiðni, tilraunastarfsemi, vellíðan og jafnrétti.
Kerfislægar hindranir — hár kostnaður, óöruggt aðgengi að vinnustofum, takmarkaðar tekjur og þóknanir vegna myndlistar og ferða-/sendingarkostnaður — setja listamönnum skorður bæði hér heima og í útlöndum.
Emilia Telese mun kynna skýrsluna og niðurstöður hennar á Samtali um starfsumhverfi myndlistarmanna fimmtudaginn 8. janúar, kl 8.30-10. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við SÍM, Myndlistarmiðstöð og CCP.
Skýrsluna í heild má lesa HÉR.