Handan heildarinnar: Útflutningur norrænna bókmennta

Miðstöð íslenskra bókmennta vakti nýverið athygli á niðurstöðum könnunar um verðmæti og umfang útflutnings norrænna bókmennta árið 2024, með áherslu á sölu þýðingaréttar. Könnunin var unnin af óháðum sérfræðingi, Leena Lahti hjá La&La Creative Agency, að beiðni norrænu bókmenntaútflutningsmiðstöðvanna FarLit – Faroese Literature, FILI – Finnish Literature Exchange, Miðstöð íslenskra bókmennta, NORLA – Norwegian Literature Abroad og Swedish Literature Exchange.

Í samráði við Miðstöð íslenskra bókmennta ákvað Rannsóknasetur skapandi greina að nýta tækifærið og setja niðurstöðurnar í samhengi við fyrirliggjandi tölur um íbúafjölda, fjölda listamanna og meðalfjölda útgefinna titla á ári.

Svíþjóð með hæstar útflutningstekjur

Í könnuninni var spurt um fjölda samninga um þýðingarrétt og tekjur vegna þeirra, í heild og eftir flokkum. Niðurstöður sýna að þegar kemur að útflutningi bókmennta árið 2024 trónir Svíþjóð á toppnum með tæpar 56 milljónir evra (8,2 ma.kr.) í útflutningstekjur og 2027 samninga. Lægstar útflutningstekjur voru í Færeyjum, rúmar 25 þúsund evrur (3,7 ma.kr.), og samningar 24 talsins. Áherslumunur milli ólíkra bókmenntaflokka greinir enn frekar á milli landa en Finnland reiðir sig að miklu leyti á barna- og ungmennabækur (um 39% af útflutningstekjum) og Ísland nær eingöngu á skáldverk (99%).

Flestir samningar miðað við höfðatölu

Fyrst skoðuðum við niðurstöðurnar í samhengi við íbúafjölda landanna samkvæmt tölum Eurostat. Þótt verulegur munur sé á íbúafjölda vekur athygli að útflutningstekjur Svíþjóðar eru 2,4 sinnum meiri en allra hinna Norðurlandanna samanlagt. Þegar tölurnar eru hins vegar skoðaðar með tilliti til íbúafjölda breytist myndin. Hvað varðar útflutningstekjur á hverja 10.000 íbúa eru Svíþjóð og Ísland fremst í flokki og þegar fjöldi samninga á hverja 10.000 íbúa er skoðaður skera Ísland og Færeyjar sig úr en þar á eftir kemur Svíþjóð.

Allar tölur eiga við um árið 2024.

Því næst litum við til fjölda starfandi listamanna samkvæmt tölum Eurostat. Sé litið til útflutningstekna á þann mælikvarða skera Ísland og Svíþjóð sig enn og aftur úr en þegar kemur að fjölda samninga á hvern listamann hefur Ísland langflesta eða um 0,07 (þ.e. 7 samningar á hverja 100 listamenn) en Svíþjóð kemur þar á eftir með 0,03 samninga (þ.e. 3 samningar á hverja 100 listamenn). Þar sem við vitum hvorki hversu margir rithöfundar eru í hópi þessara listamanna, né hversu margir titlar eru að baki hverjum samningi, getum við aðeins getið okkur til um ástæður þessa.

Að lokuðum skoðuðum við útflutningstekjur og samninga út frá meðaltali fjölda útgefinna titla á árunum 2017-2021 en það er tölfræði sem Nordic Statistics Database heldur utan um. Með þeim samanburði má sjá að flestir titlar koma árlega út í Danmörku (19.769), en útflutningstekjur þar voru þó tiltölulega lágar. Þetta skilar sér í lágum útflutningstekjur á hvern útgefinn titil en til samanburðar voru útflutningstekjur Svíþjóðar á hvern titil óvenju háar.

Allar tölur eiga við um árið 2024 nema tölur um fjölda útgefinna titla þar sem þær voru ekki tiltækar fyrir Ísland eftir 2021, auk þess sem engar tölur voru tiltækar fyrir Noreg.  

Samhengið segir sögu

Nýju ljósi er varpað á niðurstöður könnunarinnar þegar þær eru skoðaðar í samhengi við fyrirliggjandi tölur um mannfjölda, listamenn og bókaútgáfu. Greiningin sýnir til dæmis að þrátt fyrir að tölur um íslenska sölu á þýðingarrétti séu í lægri kantinum, þá eru þær í mörgum tilvikum hlutfallslega hærri en í hinum Norðurlöndunum.

Vert er að taka fram að könnunin er ekki án takmarkana, og ekki heldur greining RSSG. Hvað könnunina varðar má helst nefna mismunandi svarhlutfall milli landa og ólíkar skilgreiningar á því hver telst vera “rithöfundur”. Þá ber að hafa í huga að svörin úr könnuninni eru einungis miðuð við eitt tiltekið ár og að engar upplýsingar voru tiltækar um fjölda höfunda eða titla á bakvið hvern samning. Greining RSSG byggir á samræmdum og samanburðarhæfum gögnum frá Eurostat og Nordic Statistics Database, sem telja má áreiðanleg þótt nokkrar takmarkanir séu sannarlega til staðar, sér í lagi varðandi fjölda listamanna og fjölda útgefinna titla.

Meira svona!

RSSG fagnar allri tölfræði um atvinnulíf menningar og skapandi greina og vonar að þetta sé aðeins byrjunin á samstarfi bókmenntamiðstöðva á því sviði. Niðurstöðurnar virðast þegar hafa nýst í starfi Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem hefur til að mynda varpað ljósi á tækifæri til vaxtar í þýðingu íslenskra barnabókmennta og nú hefur miðstöðin tilkynnt að á árinu 2026 verði “barna- og ungmennabókahöfundar […] áberandi í erlendri kynningu” og stuðningur aukinn við þýðingar barna- og ungmennabóka á erlend mál.

“Við erum mjög ánægð með þessa fyrstu tilraun og ætlum að halda áfram þessu samstarfi og ná svarhlutfallinu upp svo tölurnar verði áreiðanlegri,” segir Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð íslenskra bókmennta.

HÉR má lesa skýrsluna.

 

Heimildir

Eurostat (2025). Persons working as creative and performing artists, authors, journalists and linguists. https://ec.europa.eu/eurostat/databrowser/view/cult_emp_art/default/table?lang=en

Eurostat (2025). Population on 1 January. https://ec.europa.eu/eurostat/databrowser/view/tps00001/default/table?lang=en&category=t_demo.t_demo_pop

Miðstöð íslenskra bókmenta (2026). Barna- og ungmennabókahöfundar verða áberandi í erlendri kynningu. https://www.islit.is/frettir/barna-og-ungmennabokahofundar-i-forgrunni-i-erlendri-kynningu

Nordic Statistics Database (2025). Books published by reporting country, genre and time. https://pxweb.nordicstatistics.org/pxweb/en/Nordic%20Statistics/Nordic%20Statistics__Culture/CULT17.px/

Next
Next

Lifa ekki af listinni en vinna fullt starf