Staða handverks: Sterk hefð, veikir innviðir

Ljósmyndari: Sunna Ben

Rannsóknasetur skapandi greina framkvæmdi nýverið könnun fyrir Handverk og hönnun um stöðu handverks og handverksfólks á Íslandi. Spurt var út í skilgreiningar og sjálfsmynd, menningararf, starfsumhverfi, hugverk, söluumhverfi, stuðning stjórnvalda, Handverk og hönnun, og loks bakgrunn þátttakenda.

Niðurstöðurnar benda til þess að handverk sé órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar svarenda og að það sé ómissandi þáttur í umræðu um menningararf íslensku þjóðarinnar. Á sama tíma telja margir að stuðningi stjórnvalda sé verulega ábótavant og að handverk hafi lítið vægi í opinberri umræðu um menningararf. Þá á handverksfólk erfitt með að fóta sig í sjóðaumhverfinu og skortur á vinnu- og sýningaraðstöðu hefur hamlandi áhrif á störf margra. Auk þess vakti athygli að konur voru mikill meirihluti svarenda og aðeins einn svarandi var undir þrítugu. Niðurstöðurnar varpa þannig fram spurningum um framtíð handverks á Íslandi og hvernig styrkja megi stöðu þess sem menningarverðmæta íslensks samfélags.​

Könnunin var opin frá 20. maí - 22. júní 2025 og send út í gegnum samfélagsmiðla og tengslanet setursins og Handverks og hönnunar. Þá dreifðu tiltekin fagfélög könnuninni til sinna félagsmanna. Alls svöruðu 231 könnuninni en þar af höfðu einungis 56% af því einhverjar tekjur og töldust því starfa við handverk. Könnunin er liður í þarfagreiningu fyrir handverkssamfélagið á Íslandi og markmiðið er að öðlast dýpri skilning á umhverfi handverksfólks í víðu samhengi og bera kennsl á þá þætti sem þarfnast umbóta með þarfir iðkenda í huga. Tilgangurinn er að efla íslenskt handverk sem atvinnugrein, stuðla að tryggri framtíð þess og auka skilning á handverki sem menningarverðmæti í samtímanum.

Hér eru helstu niðurstöður - Tölurnar byggja á öllum svörum, ekki einungis þeirra sem starfa við handverk, nema annað sé tekið fram.

Bakgrunnur

  • 56% svarenda starfa við handverk (hafa af því einhverjar tekjur) (126)​​

  • 54% þeirra sem starfa við handverk eru ekki í fagfélagi (57)

  • 70% svarenda eru konur (153)

  • Fleiri svarendur eru 70 ára eða eldri (29%) (64) heldur en svarendur undir 50 ára (22%) (48)

  • 59% svarenda eru 60 ára eða eldri (130)

  • 1 svarandi undir þrítugu - enginn undir 18 ára

Skilgreiningar og sjálfsmynd

  • 93% telja handverk mikilvægan hluta af eigin sjálfsmynd (mjög sammála/sammála) (205)

  • 97% telja mikilvægt að íslenskt samfélag hafi góðan skilning á því hvað handverk er (mjög sammála/sammála) (217)

Menningararfur

  • 94% telja handverk ómissandi í umræðu um menningararf íslensku þjóðarinnar (mjög sammála/sammála) (210)

  • 82% telja sig leggja sitt af mörkum til varðveislu menningararfs íslensku þjóðarinnar (mjög sammála/sammála) (183)

    53% hafa áhyggjur af því að handverksþekking þeirra glatist með næstu kynslóðaskiptum (mjög sammála/sammála) (118)

Starfsumhverfi

  • 73% eiga erfitt með að átta sig á hvaða sjóði þau geta leitað í vegna handverksstarfa sinna (mjög sammála/sammála) (162)

  • 41% telja skort á vinnuaðstöðu hafa hamlandi áhrif á getu þeirra til að starfa við handverk (mjög sammála/sammála) (92)

  • 55% telja skort á sýningaraðstöðu hafa hamlandi áhrif á sýnileika þeirra og handverks þeirra (mjög sammála/sammála) (122)

Handverk sem hugverk

  • 50% hafa áhyggjur af því að líkt sé eftir handverki þeirra í söluskyni (mjög sammála/sammála) (111)

  • 22% hafa orðið fyrir hugverkastuldi (49)

Söluumhverfi

  • 15% þeirra sem starfa við handverk (hafa af því tekjur) hafa það sem helstu tekjulind (19)

  • 40% þeirra sem starfa við handverk í um 100% starfshlutfalli hafa það sem helstu tekjulind (6)

Stuðningur stjórnvalda

  • 75% upplifa að handverksgreinar fái litla athygli í opinberri umræðu (mjög sammála/sammála) (168)

  • 66% telja að stjórnvöld veiti handverksgreinum ekki nægilegan fjárhagslegan stuðning (mjög ósammála/ósammála) (147)

  • 75% telja þörf á sér sjóði fjármögnuðum af ríkinu til að efla handverk á Íslandi (mjög sammála/sammála) (167)

Handverk og hönnun

  • 96% telja mikilvægt að til sé stofnun sem styður við hagsmuni handverks á Íslandi (212)

Next
Next

Rannsóknir um menningu og skapandi greinar kynntar á Þjóðarspeglinum