Rannsóknir um menningu og skapandi greinar kynntar á Þjóðarspeglinum
Frá vinstri: Bergsveinn, Steinunn, Njörður, Rakel Mjöll, Lara, og Erla Rún.
Þjóðarspegillinn, árleg ráðstefna Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, fór fram 30. og 31. október 2025. Á dagskrá var málstofan Menning og skapandi greinar þar sem Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG, var málstofustjóri. Hér er stutt samantekt á erindunum en lesa má nánar um þau HÉR.
Bergsveinn Þórsson, dósent við Háskólann á Bifröst, flutti erindið Sameining menningarstofnana á Íslandi: Áskoranir, forsendur og samlegðaráhrif. Markmiðið er að kortleggja forsendur og áhrif sameininga menningarstofnana á rekstrarlega og faglega þætti, og meta sett markmið sameiningaráforma og hvort þeim hafi verið náð. Meðhöfundar eru Njörður Sigurjónsson og Jón Snorri Snorrason, prófessorar við Háskólann á Bifröst, og Kári Joensen, lektor við Háskólann á Bifröst.
Lara Hoffman, nýdoktor á menntavísindasviði, og Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG, fluttu erindið Samfélagsáhrif menningar, lista og skapandi greina. Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja og greina samfélagsleg áhrif skapandi greina á Íslandi og leggja grunn að þróun nýrra mælikvarða á þessu sviði. Þorbjörg Daphne Hall, prófessor við Listaháskóla Íslands, leiðir verkefnið.
Rakel Mjöll Leifsdóttir, tónlistarkona og meistaranemi við Háskólann á Bifröst, flutti erindið Skattahvatar og menning: Hlutverk almannaheillafélaga í sjálfbærri menningarstefnu. Rannsóknin sýnir hvernig almannaheillafélög geta stutt sjálfbæra menningarstefnu með skattahvötum og aukið fjölbreytni og sjálfstæði í stuðningskerfum. Meðhöfundur er Anna Hildur Hildibrandsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst og stjórnarformaður RSG.
Steinunn Hauksdóttir, sérfræðingur og verkefnastjóri hjá RSG, sagði frá rannsókn sem ber titilinn Staða handverks á Íslandi. RSG vinnur að rannsókninni fyrir hönd Handverks og hönnunar. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast dýpri skilning á umhverfi handverksfólks á Íslandi í víðu samhengi og bera kennsl á þá þætti sem þarfnast umbóta með þarfir iðkenda í huga.