Sumarkveðja RSG - Annasamt starfsár

Þóra Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, leiða hópavinnu um samstarf og klasahugsun á ráðstefnu um menningarferðaþjónustu þann 14. maí í Hofi, Akureyri.

Við hjá Rannsóknasetri skapandi greina óskum ykkur gleðilegs sumars! Nú þegar starfsárinu lýkur brátt ætlum við að leyfa okkur að hvílast og hlaða batteríin. Skrifstofa RSG verður lokuð vegna sumarleyfa frá 14. júlí til og með 4. ágúst.

Við ljúkum þessu annasama starfsári með miklu þakklæti og erum stolt af þeim fjölmörgu verkefnum sem við höfum tekið þátt í og leitt. Við hlökkum til að mæta aftur til vinnu og vinna áfram að okkar meginmarkmiði, að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina á Íslandi. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir helstu verkefnin sem við höfum unnið að.

Sjáumst á nýju starfsári og njótið sumarsins!

Yfirlit yfir starfsárið 2024-2025

1. Samtal um skapandi greinar: Átta viðburðir um mikilvæg málefni

Fundaröðin „Samtal um skapandi greinar“, sem RSG stendur fyrir í samvinnu við CCP, hefur notið mikilla vinsælda. Á þessu starfsári höfum við haldið heil átta samtöl, þar sem rætt hefur verið um fjölbreytt efni. Meðal umræðuefna voru hagræn áhrif Hörpu, hönnunarhugsun, vöxtur fyrirtækja í greinunum, nýsköpun í tónlist og skapandi aðferðafræði. Fundirnir hafa skapað mikilvægan vettvang fyrir samræður og tengsl á milli hagaðila í einkageiranum, akademíunni og stjórnsýslunni.

2. Málþing og ráðstefnur: Efling þekkingar á skapandi greinum

Á starfsárinu hélt RSG þrjú stór og áhrifarík málþing og ráðstefnur:

  • Málþing um áhrif menningar og skapandi greina í landsbyggðum: Málþingið var haldið í Háskólanum á Akureyri og fjallaði um mikilvægi skapandi greina fyrir þróun dreifbýlis. Upptökur af erindunum eru aðgengilegar á Vimeo síðu RSG.

  • Unlocking the Power of Rural CCIs: The Intersection of Culture, Creativity and Entrepreneurship (ísl. Skapandi greinar sem drifkraftur í landsbyggðum: Skörun menningar, sköpunarkrafts og frumkvöðlastarfs): Fyrsta alþjóðlega ráðstefna RSG, sem fór fram í Eddu í maí 2025. Hún dró saman fjölda fræðimanna frá Evrópu til að ræða áhrif menningar og skapandi greina á nýsköpun og sjálfbærni í landsbyggðum. Gríðarlega vel tókst til og upptökur af ráðstefnunni eru aðgengilegar á Vimeo síðu RSG.

  • Menningarauðlind ferðaþjónustunnar: Ráðstefnan, sem haldin var í Hofi á Akureyri í maí 2025, fjallaði um samspil menningar og ferðaþjónustu og mikilvægi þess að efla rannsóknir og gagnasöfnun á því sviði. Viðburðurinn vakti mikla athygli, meðal annars í umfjöllun Spegilsins á RÚV. Upptökur af erindum eru aðgengilegar á Vimeo síðu RSG.

3. Meistaranemasjóður RSG: Stuðningur við rannsóknir framtíðarinnar

Í vetur fór fram önnur úthlutun úr meistaranemasjóði RSG, en sú fyrsta fór fram vorið 2024. Í fyrri úthlutun árið 2025 hlutu Björg Steinunn Gunnarsdóttir og Helga Guðrún Jónasdóttir styrki til að vinna lokaverkefni sín um alþýðuleiklist annars vegar og hins vegar staðbundin áhrif á menningu sveitarfélaga og verða verkefni þeirra kynnt á málþingi RSG á Act Alone í ágúst næstkomandi. Þessir styrkir eru mikilvægir til að efla rannsóknir á sviði menningar og skapandi greina á meistarastigi og styðja við nýliðun í fræðasamfélaginu. Næsta úthlutun fer fram í haust og opið er fyrir umsóknir til 22. ágúst.

4. Rannsóknir og útgáfur: Byggjum upp þekkingargrunn

RSG hefur verið virkt í mótun og framkvæmd rannsókna á starfsárinu. Þrjár þjónusturannsóknir voru unnar og tvær þeirra hafa þegar verið gefnar út. Þá tók RSG þátt í rannsóknaumsókn til Rannís auk þess sem unnið er að forkönnun fyrir þróun mælikvarða á samfélagslegum áhrifum.

Þjónusturannsóknir

  • Samspil norrænna menningarsjóða: RSG tók að sér að skrifa kafla um Ísland fyrir samrit Kulturanalys Norden um samspil innlendra og norrænna menningarsjóða. Rannsóknin var unnin af Ernu Kaaber og Erlu Rún Guðmundsdóttur og heitir Cultural project funding across geographic levels in Iceland: Exploring the overlap between Nordic and Icelandic cultural funds.

  • Hörpu-áhrifin: Skýrsla RSG um hagræn áhrif Hörpu, unnin af Ágústi Ólafi Ágústssyni, var gefin út á þessu ári. Hún sýnir fram á að bein, óbein og afleidd efnahagsleg áhrif starfsemi Hörpu nema árlega um 10 milljörðum króna og styður við um 650 störf. Skýrslan hefur verið kynnt víða og undirstrikar mikilvægi stórra menningarhúsa.

  • RSG vinnur um þessar mundir þarfagreiningu fyrir Handverk og hönnun. Liður í henni er könnun um stöðu og umhverfi handverksfólks á Íslandi.

Mótun fræðilegra rannsókna

  • RSG tók þátt í að móta og vinna umsókn í Rannsóknasjóð Rannís fyrir næstu úthlutun 2026. Rannsóknin er leidd af Nirði Sigurjónssyni, prófessor við Háskólann á Bifröst, en auk hans eru í rannsóknateyminu Bergsveinn Þórsson, dósent við Háskólann á Bifröst, Thamar Heijstra, prófessor við Háskóla Íslands, Anna Hildur Hildibrandsdóttir, lektor við Háskólann á Bifröst, Lara Hoffmann, nýdoktor við Háskóla Íslands, og Marteinn Sindri Jónsson, lektor við Listaháskóla Íslands. Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG, er fulltrúi RSG í rannsóknateyminu.

  • Verið er að undirbúa rannsókn er varðar mælikvarða á samfélagslegum áhrifum menningar og skapandi greina. Að verkefninu koma Þorbjörg Dapne Hall, prófessor við Listaháskóla Íslands, Lara Hoffmann, nýdoktor við Háskóla Íslands, og Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG. Í sumar mun Hrafnhildur Eva Guðmundsdóttir, undir leiðsögn Þorbjargar, vinna eigindlega rannsókn um samfélagsleg áhrif lista, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Í haust er svo áætlað að setja í loftið spurningakönnun sem byggir að hluta á gangaöflun Hrafnhildar.

5. Alþjóðlegt samstarf og ráðstefnur

RSG var í samstarfi við IN SITU verkefnið, sem er styrkt af Horizon Europe, í tengslum við ráðstefnuna Unlocking the Power of Rural CCIs. IN SITU verkefnið fjallar um áhrif menningar og skapandi greina á svæðisbundna nýsköpun í landsbyggðum. Samstarfið var mikilvægt til að tengja RSG við alþjóðlegt rannsóknarnet og leggja sitt af mörkum til alþjóðlegrar þekkingaröflunar á sviðinu. Þá situr Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona RSG, í stýrihópi Kulturanalys Nordenásamt fulltrúum systurstofnana RSG frá Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku. Í ágúst næstkomandi mun Erla Rún jafnframt sækja Nordic Conference on Cultural Policy Research í Osló til að kynna sér rannsóknir á þessu sviði og efla alþjóðlegt tengslanet RSG.

Next
Next

Hátíðir og leikhús á Act Alone í ágúst