Samtal um skapandi greinar: Hreyfiafl skapandi og skáldlegra framtíðarsýna
Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) í samstarfi við CCP býður í samtal um skapandi greinar fimmtudaginn 8. maí klukkan 8:30 - 10 í húsakynnum CCP Í Grósku, 3. hæð, að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Hreyfiafl skapandi og skáldlegra framtíðarsýna. Erindum verður streymt.
Geta skapandi og skáldlega framtíðarsýnir verið hreyfiafl í samtímanum? Er hægt að rýna í hvernig hið skáldlega getur víkkað sjóndeildarhring mögulegra framtíða? Geta skapandi nálganir og spekúlasjónir opnað fyrir fjölbreytta möguleika og stuðlað að umbreytingum?
Í samtali um hreyfiafl skapandi og skáldlegra framtíða er markmiðið að rýna í hvernig samfélagið sér fyrir sér framtíðina. Á meðan framtíðin er óræð, þá er mikið lagt upp úr að spá fyrir um framtíðina, skipuleggja og sjá fyrir mögulegar áskoranir. Hvaða aðferðum er beitt til þess að takast á við óvissuna? Ímyndunaraflið spilar lykilhlutverk í framtíðarsýn einstaklinga, hópa og samfélagsins í heild, en tilhneiging virðist vera að smætta möguleika framtíðarinnar niður í hið kunnuglega og það sem talið er öruggast. Þörfin fyrir umbreytingar er ákallandi á tímum loftslagsógnar, stríðsbrölts og bakslags á mörgum sviðum félagslegs réttlætis og því er mikilvægt að takast á við þessa krísu ímyndunaraflsins.
Bergsveinn Þórsson er dósent við Háskólann á Bifröst og fagstjóri opinberrar stjórnsýslu. Í rannsóknum sínum hefur hann rýnt í innleiðingu sjálfbærni og loftslagsaðgerða menningarstofnana og hvernig menningargeirinn geti lagt sitt af mörkum til samfélagslegra breytinga og fjölbreyttra framtíðarsýna. Í erindi sínu mun hann kynna sýninguna Beyond Barcode sem hann vann að í samstarfi við rannsóknarverkefnið CoFutures: Pathways to possible presents við Oslóarháskóla og Interkulturelt Museum í Osló. Sýningin varpaði fram sjö skáldlegum sviðsmyndum um mögulegar framtíðir borgarinnar unnar með ungu fólki úr nærsamfélagi safnsins.
Dögg Sigmarsdóttir er verkefnastjóri sem lokið hefur APME í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er með meistaragráðu í Political and Economic Philosophy frá Universität Bern (Sviss) og hefur einnig lokið diplómanámi í alþjóða- og evrópurétti frá sama háskóla. Á Borgarbókasafninu hefur hún verið í starfi verkefnastjóra borgaralegrar þátttöku. Hún hefur einnig stýrt fjölmörgum verkefnum innan frjálsra félagasamtaka sem snúa að stefnumótun, nýsköpun og fræðslu á sviði mannréttinda, lýðræðisþátttöku, sjálfbærni og inngildingar. Í erindi sínu ræðir Dögg aðferðafræði samsköpunar og hvernig hægt sé að móta samfélagsrými sem stuðla að framtíðarvon, sjálfbærni og velsæld.
Þorgerður Ólafsdóttir útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá Glasgow School of Art árið 2013 og lauk BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2009. Í verkum sínum skoðar hún breytingar sem staðir ganga í gegnum, hvort sem þær ná utan um eitt andartak, eina mannsævi eða eru á jarðsögulegum skala. Hún hefur áhuga á fyrirbærum og hlutum sem vekja upp undrun og dýpka samband okkar við náttúruna, í veröld sem tekur stöðugum breytingum. Þorgerður er þátttakandi í tveimur rannsóknarverkefnum; Relics of Nature, an Archaeology of Natural Heritage in the High North, á vegum Háskólans í Osló og Extremes, sem hýst er af Háskóla norðurslóða í Tromsö og er í samstarfi við Huldu, náttúruhugvísindasetur á Norðurlandi. Í erindi sínu mun Þorgerður segja frá listrannsókn sinni og sýningarverkefni Brot úr framtíð. Fyrsti hluti þessa verkefnis opnaði í Bogasal Þjóðminjasafnsins á Listahátíð í Reykjavík síðasta sumar og lauk með málþinginu Samtal um hamfarir í nóvember 2024.
Í kjölfar erinda lýkur streyminu og opnað verður fyrir umræður meðal fundargesta.
Vinsamlegast skráið mætingu (á staðinn). Athugið að sætaframboð er takmarkað.
Skráningu lýkur kl. 12 miðvikudaginn 7. maí.
CCP býður fundargestum upp á kaffi og léttan morgunverð.