Áhugakönnun um samstarf
í doktorsrannsóknum

Í kjölfar styrks sem fékkst úr Samstarfi háskólanna fyrir verkefnið “Þróun samstarfs háskóla og stofnana um þekkingaruppbyggingu í atvinnuvegi menningar og skapandi  á MA og doktorsstigi” vinnur Háskólinn á Bifröst nú að einum lið þess verkefnis í samstarfi við Rannsóknasetur skapandi greina. Auk hans eru samstarfsaðilar Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Hagstofa Íslands og Byggðastofnun. 

Liðurinn felur í sér að kortleggja þá aðila sem sæju hag sinn í því að eiga í samstarfi við rannsóknastofnun og doktorsnema í tengslum við doktorsrannsókn á sviði menningar og skapandi greina. Könnunin hér til hliðar er því ætluð fyrirtækjum sem sjá hag sinn í því að eiga í slíku samstarfi. Orðið fyrirtæki er notað hér eftir en nær til hvers konar skipulagsheildar, svo sem fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka.

Samstarfið felur í sér að fyrirtækið kosti doktorsnám sem tengist menningu og skapandi greinum, í tilvikum þegar efni rannsóknarinnar tengist starfsemi eða hlutverki fyrirtækisins, án þess þó að vera hluti af daglegum verkefnum. Athugið að einnig væri möguleiki á að sækja um styrki fyrir verkefnið. Aðili innan rannsóknastofnunarinnar yrði leiðbeinandi og aðili innan fyrirtækisins tæki þátt í vinnunni, t.d. sem meðleiðbeinandi. Ávinningur fyrir fyrirtækið felur m.a. í sér: 

  • Tækifæri til að hafa áhrif á efni rannsóknarinnar svo úr verði þekking sem nýtist starfseminni. 

  • Aukið þjónustu- og/eða vöruframboð byggt á rannsóknum sem eykur trúverðugleika starfseminnar. 

  • Tækifæri til að efla og móta rannsóknastarf innan fyrirtækisins sem hefur bein áhrif á þróun fyrirtækisins. 

  • Sterkara tengslanet við háskóla- og rannsóknarsamfélagið. 

  • Aðgangur að ytri fjármögnun, t.d. í gegnum íslensk eða evrópsk styrktarkerfi (svo sem Horizon Europe). 

  • Möguleiki á að ráða doktorsnemann að námi loknu, sem mun þá þegar þekkja starfsemina að einhverju leyti. 

Engin skuldbinding felst í því að svara spurningunum heldur er tilgangurinn að fá hugmynd um þörfina og þau tækifæri sem standa doktorsnemum til boða. Í kjölfar úrvinnslu gæfist kostur á ítarlegra samtali. Könnunin verður opin út mánudaginn 22. september 2025.

Ef spurningar vakna, hafið samband við steinunnh@bifrost.is.

Kærar þakkir fyrir þátttökuna.