Framtíðarfræði: Menningararfur og sjálfbær framtíð 

Erna Kaaber, Katriina Siivonen, Anna Hildur Hildibrandsdóttir og Bergsveinn Þórsson eftir vinnusmiðju um framtíð menningararfs.

Dr. Katriina Siivonen, dósent við Háskólann í Turku í Finnlandi, er stödd á Íslandi til að kynna rannsóknir sínar á sviði framtíðarfræða.

Í dag flutti hún erindi í vinnusmiðju á vegum Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst þar sem hún kynnti rannsóknir sínar á framtíð menningararfs og sjálfbærri umbreytingu menningar. Hún lagði áherslu á hvernig menning getur verið lykilþáttur í að takast á við áskoranir sjálfbærrar þróunar og hvernig menningarstofnanir geta nýtt sér aðferðir framtíðarhugsunar til að efla hæfni sína í þeirri viðleitni.

Siivonen hefur þróað aðferðarfræði sem styður við þátttöku- og eigindlegar rannsóknaraðferðir í framtíðarfræðum og þjóðfræði, með sérstakri áherslu á menningarlega sjálfbærni og arfleifð.

Katriina heldur erindi á alþjóðlegri ráðstefnu sem fram fer  í Eddu, húsi íslenskunnar, föstudaginn 30. maí 2025. Ráðstefnan ber yfirskriftina „Skapandi greinar sem drifkraftur í landsbyggðum: Skörun menningar, sköpunarkrafts og frumkvöðlastarfs“ og er skipulögð af Rannsóknasetri skapandi greina (RSG) í samstarfi við Árnastofnun og Horizon Europe verkefnið IN SITU.

Ráðstefnan í Eddu mun einblína á hlutverk menningar og skapandi greina í að stuðla að samfélags- og efnahagslegri nýsköpun í landsbyggðum. Meðal umræðuefna verða mikilvægi frumkvöðla, staðbundin þróun og hvernig menningarleg auðlind getur stuðlað að sjálfbærni og þrautseigju í jaðarbyggðum. Ráðstefnan fer fram á ensku og verður einnig streymt á netinu.

Með erindi sínu mun Siivonen varpa ljósi á hvernig menningararfur og framtíðarhugsun geta verið lykilþættir í að móta sjálfbæra framtíð, sérstaklega í samhengi við landsbyggðir og jaðarbyggðir.

Ráðstefnan er frí og öllum opin. Skráningar fara fram hér

Previous
Previous

Samfélagsleg fyrirtæki í menningu og listum

Next
Next

„Við eigum að horfa á menninguna sem innvið“ – Anna Hildur í Sprengisandi